Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Menn sem veiða ketti í búr

Fyrir tæpri viku týndist kettlingur foreldra minna á Selfossi. Þau höfðu samband við lögreglu sem benti þeim á mann sem hún grunaði um að veiða ketti í búr. Það kom á daginn að maðurinn hafði veitt kettlinginn, keyrt hann að Ingólfsfjalli og sleppt honum þar. Hann fannst svo dauður út í vegkanti rétt við Kögunarhól. Maðurinn viðurkenndi fúslega verknaðinn og virtist ekki kippa sér mikið upp við þetta. Ein afsökunin var sú að kettlingurinn var ekki með ól.  Það væri kannski afsökun ef hann hefði ekki viðurkennt að veiða kött sem var merktur í bak og fyrir. Sá köttur fannst, blessunarlega.

Ég heyrt af þessu áður, að menn veiði ketti í búr og sleppi þeim einhvers stað út í buska. Vinafólk mitt lenti í þessu í Reykjavík fyrir ekki svo löngu þar sem kettlingurinn þeirra endaði í Hafnarfirði og varð fyrir bíl þar. Svo er víst annar hér á Selfossi sem stundar þessa iðju og einn í Hveragerði.

Nú geri ég mér grein fyrir því að til er fólk sem er illa við ketti. Ég skil vel að sumum finnst þeir vera aðskotadýr, óhreinir og jafnvel illgjarnir þegar fuglalíf er annars vegar. Ég get jafnvel skilið tilhneigingu sumra að veiða þá í búr inni á sinni lóð til að vernda eigur sínar eða fuglalíf. En skilningurinn endar þegar menn keyra þá langt frá heimahögum sínum og skilja þá eftir þar sem þeirra bíður lítið annað en hungur, kuldi, hættuleg umferð og dauði. Fólk sem stundar slíkt er illgjarnt, siðblint og með verulegan samkenndarskort.

Hvort sem okkur líkar við ketti eða ekki þá eru þeir miklir gleðigjafar inni á fjölda heimila. Börn jafnt sem fullorðnir mynda tilfinningaleg tengsl við þessi dýr og þegar þau falla frá þá fylgir því mikil sorg. Ekkert okkar hefur rétt á að valda slíkri sorg alveg  sama hverjar skoðanir okkar eru á gæludýrum.

Ég vil því beina því til kattaveiðara að næst þegar þeir eru með kött í búri að hugsa aðeins út í fólkið sem saknar þessara dýra. Það eru til gáfulegri leiðir til að berjast gegn lausagöngu katta en að senda þá eitthvert til að lifa villikattalífi. Dýralækningamiðstöðvar taka á móti köttum sem og Kattholt og einnig er hægt að tilkynna þá til lögreglu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband